Bandaríkin munu nú fjölga hermönnum sínum „á Wiesbaden svæðinu“ um 500 og verða þeir komnir þangað í haust í síðasta lagi sagði Austin á fréttamannafundi í Berlín. Hann sagði að þetta styðji við skuldbindingar Bandaríkjanna við Þýskaland og NATO. Hann sagði að með fjölguninni verði varnir Evrópu styrktar og geta NATO til að koma í veg fyrir átök aukin. Með þessu eflist geta NATO til nethernaðar að hans sögn og til að bregðast skjótt við ef senda þarf hernaðaraðstoð til bandamanna NATO og aðildarríkjanna.
Hann var spurður hvort þetta væru skilaboð til Rússa í ljósi liðssöfnunar þeirra við úkraínsku landamærin. Svar hans var að þetta væru skilaboð til NATO um að Bandaríkin styðji NATO 100%.
Annegret Kramp-Karrenbauer, varnarmálaráðherra Þýskalands, fagnaði tilkynningunni og sagði þetta „gleðifréttir“ og að tryggð Bandaríkjanna við NATO væri „mikilvæg stoð frelsis og friðar“.