Bandaríkin ákváðu í síðustu viku að styrkja samband sitt við Taívan en það er svar við sífellt meiri hernaðarlegum ágangi Kínverja við eyjuna en kínverskar herþotur rjúfa lofthelgi hennar nær daglega þessar vikurnar. Að auki hafa Kínverjar blásið til heræfinga í Taívansundi.
Talsmaður kínverska utanríkisráðuneytisins sagði í gær að Kínverjar hafi komið því skýrt á framfæri við Bandaríkin að þau eigi ekki að blanda sér í málefni Taívan. Hann hvatti Bandaríkin til að „leika sér ekki að eldinum“ og hætta þegar í stað öllum opinberum samskiptum við Taívan til að senda ekki „röng skilaboð“ til sjálfstæðisafla í Taívan en það gæti skaðað samband Bandaríkjanna og Kína og stefnt friði í Taívansundi í hættu.
Bandarísk stjórnvöld sögðu um helgina að þau hafi áhyggjur af ágengni Kínverja og árásargjarnri hegðun þeirra gagnvart Taívan. Í tilkynningu sem kínverska utanríkisráðuneytið sendi frá sér vegna þessa segir að Kínverjar séu staðráðnir í að vernda sjálfstæði sitt. „Standið ekki vitlausum megin við 1,4 milljarða Kínverja,“ sagði í tilkynningunni.