„Síonistarnir vilja hefna sín vegna góðs árangurs okkar við að fá refsiaðgerðunum aflétt. Þeir hafa opinberlega sagt að þeir muni ekki leyfa það,“ sagði Zarif í samtali við íranska sjónvarpsstöð og bætti við að Íranir muni hefna sín.
Gefið hefur verið í skyn að brotist hafi verið inn í tölvukerfi kjarnorkustöðvarinnar og rafmagnið þannig tekið af. Íranir hafa ekki sagt mikið annað en að um rafmagnsleysi hafi verið að ræða og að engin geislavirk efni hafi sloppið út og að enginn hafi slasast. Í gær sögðu erlendir fjölmiðlar frá því að talið væri að rafmagnsleysið muni seinka kjarnorkuáætlun Íran um níu mánuði.
Í kjarnorkustöðinni í Natanz er unnið að því að auðga úran. Ef það nær ákveðnu stigi er hægt að nota það í kjarnorkuvopn.
Íran og Bandaríkin eiga nú í óbeinum viðræðum um að koma kjarnorkusamningnum frá 2015 aftur á sporið en Donald Trump, fyrrum Bandaríkjaforseti, dró Bandaríkin út úr samningnum 2018. Joe Biden, núverandi forseti, hefur gefið til kynna að hann sé reiðubúinn til samninga.
Ísraelska ríkisstjórnin hefur alltaf verið á móti samningnum og segir að á meðan Íran haldi áfram með kjarnorkuáætlun sína stafi Ísrael ógn af landinu.