Maria van Kerkhove, farsóttafræðingur hjá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni WHO, sagði í gær að faraldurinn sé nú á „krítísku“ stigi. „Faraldurinn er nú í veldisvexti. Það er ekki staða sem við viljum vera í eftir 16 mánaða faraldur með fjölda sóttvarnaaðgerða,“ sagði hún á fréttamannafundi.
136 milljónir manna um allan heim hafa smitast af kórónuveirunni frá því að hún uppgötvaðist fyrst í Kína í árslok 2019. 2,94 milljónir hafa látist.
Tedros Adhanom Ghebreyesus, framkvæmdastjóri WHO, sagði að á heimsvísu hafi smitum fjölgað í sjö vikur samfellt og í fjórar vikur samfellt hafi dauðsföllum fjölgað. Þetta gerist þrátt fyrir að fólk sé bólusett af miklum krafti í mörgum Evrópuríkjum en rúmlega 780 milljónir skammta hafa nú verið gefnir í álfunni. Hann sagði að bóluefni séu mikilvægur þáttur í baráttunni gegn veirunni en ekki eina verkfærið. „Það virkar að stunda félagsforðun, nota andlitsgrímur, þvo hendur, taka sýni, fylgjast með, nota smitrakningu og sóttkví,“ sagði hann og bætti við að misskilningur og misvísandi upplýsingar um sóttvarnaaðgerðir og hvernig á að fylgja þeim kosti mannslíf.