Boris Johnson, forsætisráðherra, tilkynnti þetta í gærkvöldi þegar hann sendi frá sér yfirlýsingu. Hann sagði að um mikilvægan áfanga væri að ræða því nú væri búið að bjóða öllum sem eru í þeim níu hópum sem eru taldir í mestri áhættu, hvað varðar smit og veikindi, bólusetningu.
Þetta þýðir að 32 milljónir landsmanna hafa nú fengið að minnsta kosti einn skammt af bóluefni gegn COVID-19 en rúmlega 66 milljónir búa í Bretlandi.
Næstu skref eru að bjóða fólki annan skammt af bóluefni og að bjóða öllum fullorðnum upp á bólusetning fyrir ágúst.
Í gær var slakað töluvert á sóttvarnaaðgerðum og fengu hárgreiðslustofur, barir og veitingastaðir þá leyfi til að opna á nýjan leik. Afléttingin verður í nokkrum skrefum og til að byrja með mega barir og veitingastaðir aðeins taka við gestum á útisvæðum sínum en vonast er til að gestir megi fara inn á staðina þann 17. maí. Leikhús, kvikmyndahús og næturklúbbar fá ekki að opna að sinni.
Skotar, Walesverjar og Norður-Írar sjá sjálfir um sínar sóttvarnaaðgerðir og eru nú einnig farnir að undirbúa tilslakanir.
Smitum og dauðsföllum af völdum COVID-19 hefur fækkað mjög í Bretlandi á undanförnum vikum og má nefna að í gær greindust 3.568 smit en í janúar voru smitin yfir 50.000 á dag. 4,3 milljónir Breta hafa smitast af kórónuveirunni og 127.000 hafa látist.