Mánudaginn 2. apríl 1922 kom Josef Mayer með póstinn á býlið. Hann knúði dyra og kíkti inn um glugga en sá ekkert lífsmark. Hann tók eftir því að barnavagn Josef, yngsta barnsins, var horfinn úr eldhúsinu en þar var hann alltaf. Daginn eftir kom Albert Hofner, vélvirki, til býlisins til að laga landbúnaðartæki. Ekkert lífsmark var á býlinu nema hvað hundurinn var þar. Hofner fór inn í skemmuna og byrjaði að vinna. Viðgerðinni var lokið eftir fjórar klukkustundir. Hann sá þá að einhver hafði bundið hundinn og opnað hlöðudyrnar á meðan hann var að vinna. Einhver var því heima. Nágrannar höfðu einnig séð reyk stíga upp úr skorsteininum.
Síðdegis þann 4. apríl fóru nágrannar fjölskyldunnar heim til hennar til að kanna hvort ekki væri allt í lagi. Þetta voru Lorenz Schlittenbauer, Michael Pöll og Jakob Sigl. Þegar þeir nálguðust býlið sagði Lorenz: „Það er ekkert lífsmark hér. Annað hvort hafa þau öll hengt sig eða verið drepin.“ Hinir tveir litu hvor á annan. Þetta voru ummæli sem þeir mundu síðar.
Í hesthúsinu fundu þeir fjögur lík. Þetta voru hjónin Andreas og Zäzilie Gruber, dóttir þeirra Viktoria og barnabarnið Zäzilie Gabriel. Georg Reingruber, frá morðdeild lögreglunnar í München, lýsti vettvanginum svona: „Miklir höfuðáverkar voru á öllum fjórum líkunum og eitt lá í blóðpolli. Andreas Gruber var bara í buxum og skyrtu. Litla Zäzilie var bara í peysu . . . í fóðurtrogi í horninu var haki.“
Josef, yngsta barnið, var ekki meðal hinna látnu og heldur ekki húshjálpin Maria. Nágrannarnir fylltust von, kannski hafði Maria bjargað Josef og komið honum í skjól. Þeir fóru inn í íbúðarhúsið. Schlittenbauer tók upp lykil, hinum til mikillar undrunar, og opnaði útidyrnar. Reingruber lýsti aðkomunni í íbúðarhúsinu svona: „Úr eldhúsinu gengum við inn í svefnherbergi. Á gólfinu lá kona í blóðpolli með brotna höfuðkúpu . . . Þetta var húshjálpin Maria Baumgartner. Hún var fullklædd og í leðurstígvélum. Það voru blóðblettir á gólfinu. Það stóðu þrjú koffort, tvö rúm, vagga og barnavagn í herberginu. Í barnavagninum lá tveggja og hálfs árs sonur ekkjunnar Viktoria Gabriel með brotna höfuðkúpu.“
Fjölskyldan var vel efnum búin en engu hafði verið stolið. Það eina sem vantaði var matur í búrið. Að auki höfðu kýrnar verið mjólkaðar og dýrin fóðruð. Á þessu var bara ein skýring – morðinginn hafði verið á býlinu í nokkra daga eftir morðin. Hann hafði borðað, kynt upp og annast dýrin á meðan sex lík lágu í húsunum. Það var kannski ástæðan fyrir að öll líkin voru hulin þegar lögreglan kom á vettvang. Líkin í hesthúsinu voru hulin með grasi og tréfleka. Maria var að hluta undir dýnu og kjóll hafði verið lagður yfir barnavagninn sem Josef var í. Allt benti til að brjálæðingur hefði verið að verki.
Grunur beindist fljótlega að bakaranum Josef Bärtl sem hafði flúið frá geðsjúkrahúsi í Günzburg nokkrum mánuðum áður. Hann var talinn mjög hættulegur. Kannski hafði hann ástæðu til að hatast við fjölskylduna. En fljótlega gerði lögreglan uppgötvun sem beindi sjónum hennar að einhverjum sem stóð fjölskyldunni nær.
Vorið 1914 giftist Viktoria Gruber Karl Gabriel. Um miðjan desember komu boð um að Karl hefði fallið á Vesturvígstöðvunum en fyrri heimsstyrjöldin stóð þá yfir. Faðir Viktoria, Andreas Gruber, sagði þá: „Viktoria þarf ekki á nýjum manni að halda, hún hefur mig.“ Ári síðar varð ljós hvað hann átti við því þá var hann dæmdur í eins árs fangelsi fyrir sifjaspell og Viktoria var dæmd í eins mánaðar fangelsi fyrir sama brot. Um leið og þau voru látin laus tóku þau upp þráðinn þar sem frá var horfið.
Sumir héldu því fram að Karl Gabriel hefði ekki fallið á Vesturvígstöðvunum heldur hefði hann gerst liðhlaupi og gengið til liðs við útlendingahersveitina. Hann hefði síðan snúið aftur til Þýskalands og fjölskyldunnar. Í stað þess að vera tekið opnum örmum hafi hann uppgötvað að eiginkona hans átti í sambandi við föður sinn. Í brjálæðiskasti hafi hann myrt alla á býlinu. En þetta var bara orðrómur sem fékkst aldrei staðfestur og ummerki á vettvangi studdu ekki þessa kenningu.
Sumarið 1918 kynntist Viktoria nýjum manni, Lorenz Schlittenbauer. Hann var einn þeirra þriggja sem komu á býlið og fundu líkin. Það var líka hann sem lét falla ummæli um að öll fjölskyldan hefði verið myrt. Eftir nokkurra mánaða kynni þeirra bað hann Viktoria um að giftast sér en hún sagði nei og það gerði faðir hennar einnig. Hann vildi ekki deila dóttur sinni með öðrum manni.
Ári síðar eignaðist Viktoria soninn Josef. Með því að skoða dagatalið sannfærðist Lorenz um að hann væri ekki faðir drengsins. Að öllum líkindum var Andreas bæði faðir drengsins og afi. Lorenz reyndi að gleyma fjölskyldunni enda þótt það væri erfitt því hann bjó skammt frá henni. Hann kvæntist og eignaðist dótturina Önnu en hún lést í mars 1922 nokkrum dögum áður en morðin á Hinterkaifeck áttu sér stað. Fólk sem hitti Lorenz eftir andlát Önnu sagði að hann hefði virst örvinglaður og að það hafi hann verið þegar líkin fundust. Hann er síðar sagður hafa sagt að morðin hafi verið hefnd fyrir blóðskömmina á milli föður og dóttur. „Þetta var refsing guðs,“ er hann sagður hafa sagt.
Í sveitinni „vissu“ allir að Lorenz hefði myrt fólkið. Hann bar sterkar tilfinningar til Gruberfjölskyldunnar og það ekki allar hlýjar. Hann bjó að auki í aðeins 300 metra fjarlægð frá fjölskyldunni og þekkti býlið vel, kannski betur en hann vildi kannast við. Hann var einnig með lykil að húsinu.
Lögreglan þreifaði sig áfram í blindni við rannsókn málsins. Háum verðlaunum var heitið fyrir upplýsingar sem gætu leyst málið en allt kom fyrir ekki. Að lokum var gripið til þess ráðs að senda höfuð tveggja fórnarlamba til Nürnberg þar sem tveir miðlar voru fengnir til aðstoðar. Annar fór í trans þegar hann sá höfuðin og lýsti morðingjanum og sagði hann vera feiminn, með hryllilegan hlátur, loðið andlit, stingandi augnaráð og gæti auðveldlega orðið æstur. Þetta þótti ekki sérstaklega gagnlegt.
Ekkert kom fram sem gat leitt lögregluna á slóð morðingjans og málið er enn óuppleyst. Josef Bärtl fannst aldrei. Lorenz var aðeins yfirheyrður tvisvar, í bæði skiptin sem vitni en ekki grunaður. 1941 höfðaði hann mál á hendur nokkrum nágrönnum sínum fyrir ærumeiðingar og hafði sigur. Hann lést síðar þetta ár. Að síðari heimsstyrjöldinni lokinni sögðu hermenn sem snéru heim frá Austurvígstöðvunum að þeir hefðu hitt þýskættaðan sovéskan liðsforingja sem talaði með miklum bæverskum hreim. Hann sagði þeim að hann væri morðinginn frá Hinterkaifec. Þetta styður við kenninguna um að Karl Gabriel hafi ekki fallið í fyrri heimsstyrjöldinni og hafi myrt eiginkonu sína og fjölskyldu hennar auk húshjálparinnar Mariu. Þetta fékkst þó aldrei staðfest með fullri vissu.