Eldgosið er kraftmikið og sendir öskuský marga kílómetra upp í loftið. Hún fellur síðan til jarðar og hefur lagst yfir eyjuna en þar búa 110.000 manns. Á sjónvarpsmyndum má sjá að skyggni á norðurhluta eyjunnar hefur verið sáralítið vegna öskufallsins en það minnir einna helst á snjókomu. Á suðurhluta eyjunnar, þar sem höfuðborgin Kingstown er, hefur öskufallið frekar minnt á þunna þoku.
Aska hefur nú borist um 180 kílómetra í austur og er farin að falla á nágrannaeyjuna Barbados. Íbúar á áhrifasvæði gossins eru hvattir til að halda sig innandyra. Um 16.000 íbúar, sem búa nærri eldfjallinu, hafa verið fluttir frá heimilum sínum. Ekki hefur verið tilkynnt um slys á fólki eða manntjón.
Loftrýmið yfir Saint Vincent er lokað vegna ösku og búið er að loka fyrir vatnsveitur á eyjunni. Yfirvöld í Venesúela og Gvæjana hafa sent skip með mat og drykk til eyjunnar og yfirvöld á Barbados hafa einnig sent margvíslega aðstoð. Fjögur skemmtiferðaskip eru komin að eyjunni til að flytja fólk á brott. Vísindamenn telja að eldgosið geti staðið yfir vikum saman og ekki sé útilokað að það bæti enn frekar í kraft þess.