Samkvæmt fréttum norskra fjölmiðla var Hans maðurinn á bak við nettímaritið Nyhetsspeilet en það er vettvangur samsæriskenninga. Hann hafði ítrekað haldið því fram að heimsfaraldur kórónuveirunnar sé ekki raunverulegur. TV2 hefur eftir Svein-Inge Johansen, félaga Hans og samstarfsmanni um Nyhetsspeilet, að andlátið sé mikið áfall og samfélagið í kringum Nyhetsspeilet sé í áfalli. Hann sagði Hans hafa haft mikinn áhuga á samfélagsmálefnum. „Hann naut mikillar virðingar margra. Hann lét víða að sér kveða og var með stórt tengslanet. Okkur er brugðið og við erum í áfalli, þessu áttum við ekki von á,“ sagði hann.
TV2 segir að Hans hafi líklega verið með einkenni COVID-19 í sjö til tíu daga áður en hann leitaði til læknis. Are Løken, yfirlæknir í Gran, sagði að Hans hafi verið með einkenni í eina til tvær vikur áður en hann lést. Einkennin hafi farið versnandi og á mánudagskvöldið hafi hann verið orðinn mjög veikur en hafi ekki viljað leita sér aðstoðar. Hann sagði að Hans hafi ekki farið í sýnatöku áður en hann lést en sýni var tekið úr honum eftir andlátið og það staðfesti að hann var með COVID-19.
Hans hélt oft samkomur á heimili sínu í Gran, meðal annars 10 dögum áður en hann lést. En þá voru 20 til 40 manns samankomnir þar. Þetta var fólk sem kom víða að og á það sameiginlegt að aðhyllast samsæriskenningar og afneita tilvist kórónuveirunnar og heimsfaraldursins. Yfirvöld telja að önnur samkoma hafi verið haldin daginn eftir. Þessar samkomur brutu gegn sóttvarnaráðstöfunum og eru nú til rannsóknar hjá yfirvöldum.
Í kjölfar andlátsins hafi nokkrir látið í sér heyra á samfélagsmiðlum og segja að Hans hafi ekki látist af völdum COVID-19 og sumir telja að hann hafi verið myrtur og enn aðrir að yfirvöld beri ábyrgð á andláti hans. Það má því segja að aðrir samsæriskenningasmiðir hafi tekið upp þráðinn þar sem Hans hætti.