Á nokkrum vikum hafa mörg þúsund manns, aðallega ungar konur, skrifað um upplifanir sína á vefsíðuna everyonesinvited.uk. Í færslunum er skýrt frá menningu þar sem kynferðisleg áreitni, kynferðislegt ofbeldi og í sumum tilfellum nauðganir hafa átt sér stað, í flestum málanna voru það aðrir nemendur sem voru gerendur. Margir af skólunum, sem koma við sögu, eru einkaskólar þar sem foreldrarnir greiða sem nemur um 5 milljónum íslenskra króna á ári fyrir námsvist barna sinna.
Umfang ofbeldisins er óþekkt en yfirvöld taka málið mjög alvarlega á grunni þeirra lýsinga sem nú þegar hafa birst á síðunni. Um er að ræða ofbeldi í grunn- og framhaldsskólum.
Lundúnalögreglan hefur nú þegar hafið rannsókna á skólum í borginni og ríkisstjórnin hefur sett teymi á laggirnar sem á að vinna hratt að því að kortleggja umfang þessara mála um allt land.
Umræðan um þetta hófst í kjölfar morðsins á Sarah Everard, 33 ára, sem var myrt nýlega þegar hún var gangandi á leið heim til sín.
Lögregla og ákæruvald ætla á næstu vikum að fara yfir þær færslur sem hafa birst á fyrrgreindri heimasíðu og sérstakri símalínu hefur verið komið upp sem fórnarlömb geta hringt í.
Talsmaður ríkisstjórnarinnar sagði í samtali við The Telegraph að ef skólar geti ekki uppfyllt eðlilegar kröfur hvað varðar öryggi nemenda þá áskilji ríkisstjórnin sér rétt til að loka þeim.