Robson var 19 ára þegar þetta gerðist. Flugmiði frá Ástralíu til Bretlands kostaði 700 pund en hann var aðeins með 40 pund í laun á viku sagði hann nýlega í samtali við Irish times. Hann fékk þá „heimskulega“ hugmynd en í henni fólst að hann keypti lítinn trékassa til að láta senda sig sem frakt í.
Hann fékk tvo Íra til að aðstoða sig og er nú að leita að þeim til að þakka þeim fyrir aðstoðina. Hann sagðist aðeins vita að þeir hétu Paul og John. Eftir að Robson hafði komið sér fyrir í kassanum með kodda, ferðatösku, bók með söngtextum Bítlanna og tvær flöskur (önnur fyrir vatn og hin fyrir þvag) negldu Írarnir kassann aftur og skráðu hann sem fragt í flug Qantas frá Melbourne til Lundúna.
En það kom babb í bátinn því svo mikill farangur var með vélinni að ekki var pláss fyrir kassann með Robson og var hann því settur um borð í flugvél frá PanAm sem var á leið til Los Angeles í Bandaríkjunum. Í heildina var Robson í kassanum í fjóra sólarhringa og segir hann það hafa verið „hryllilega lífsreynslu“. Meðal annars var kassinn oft á hvolfi.
Þegar kassinn var tekinn til skoðunar í Bandaríkjunum fannst Robson auðvitað og var tekinn til yfirheyrslu hjá alríkislögreglunni FBI. Hann var síðan látinn laus og flaug til Lundúna sem venjulegur farþegi.