CNN skýrir frá þessu. Vísindamenn segja að loftsteinninn hafi verið úr kolefniskondríti sem er sjaldgæf loftsteinategund. Þetta er eitt frumstæðasta og upprunalegasta efnið í sólkerfinu og vitað er að í steinum af þessari tegund hafa verið lífræn efni og amínósýrur en þetta eru undirstöðuefni í lífi.
The Natural History Museum í Lundúnum segir að hlutar úr loftsteininum hafi fundist og séu í svo góðu ástandi að hægt sé að bera þá saman við steina sem voru fluttir til jarðarinnar frá tunglinu á sínum tíma. „Mér brá þegar ég sá þetta og vissi um leið að þetta var sjaldgæfur loftsteinn og algjörlega einstakur atburður,“ er haft eftir Richard Greenwood, vísindamanni hjá safninu, í tilkynningu frá því en hann var fyrstur til að bera kennsl á loftsteininn.
New footage of the #fireball tonight. Sent by Katie Parr pic.twitter.com/J4jmsM9tFj
— UK Meteor Network (@UKMeteorNetwork) February 28, 2021
Safnið segir að vitað sé um 65.000 loftsteina hér á jörðinni. Aðeins voru sjónarvottar að hrapi 1.206 þeirra og af þeim eru aðeins 51 úr kolefniskondríti.
Loftsteinninn hrapaði til jarðar klukkan 21.54 þann 28. febrúar og náðu margir myndum af þegar hann brann í gufuhvolfinu. Hraði hans var tæplega 14 km/klst áður en hann kom inn í gufuhvolfið þar sem hann brann að mestu upp.
Út frá myndum var hægt að staðsetja nokkuð nákvæmlega hvar brot úr loftsteininum hröpuðu til jarðar að sögn talsmanna safnsins.