The Guardian skýrir frá þessu. Fram kemur að í viðtali við argentínska blaðamanninn og lækninn Nelson Castro í Vatíkaninu í febrúar 2019 hafi páfinn sagt að hann hugsi um dauðann en óttist hann ekki. Það er Castro sem skrifaði bókina.
Útdráttur úr bókinni var birtur í argentínska dagblaðinu La Nacion nýlega. Í honum kemur fram að þegar Frans páfi, sem er 84 ára, var spurður hvernig hann vilji hafa síðustu daga sína hafi hann svarað: „Ég verð páfi, annað hvort virkur eða sestur í helgan stein, og í Róm. Ég mun ekki snúa aftur til Argentínu,“ sagði hann.
Páfinn hefur þurft að aflýsa ýmsu á síðustu mánuðum vegna settaugarbólgu en ekki er vitað til að hann þjáist af öðrum alvarlegum sjúkdómum. Vatíkanið hefur alltaf verið þögult um heilsufar páfa hverju sinni.
Í nýju bókinni segir að þetta sé í fyrsta sinn sem páfi ræðir opinberlega um heilsu sína.
Í bókinni segir hann einnig að hann sakni Argentínu ekki en þar fæddist hann og ólst upp og bjó raunar þar í 76 ár. „Það sem veldur mér sársauka eru vandamál landsins,“ sagði hann en Argentína glímir við mikinn efnahagsvanda. Hann segir einnig að hann hafi leitað sér aðstoðar sálfræðings vegna kvíða á þeim tíma sem hann aðstoðaði fólk við að komast frá Argentínu á tímum herforingjastjórnarinnar.