Læknar tóku eftir þessari þróun í upphafi árs og síðan þá hefur hlutfall ungra sjúklinga aukist. Sérfræðingar hafa spurt sig hvort þetta sé eðlileg afleiðing af því að sífellt fleira eldra fólk er bólusett og að veiran breiðist því frekar út í öðrum aldurshópum? Þá er einnig spurt hvaða hlutverki breska afbrigði veirunnar gegni í þessu?
Antoine Viellard-Baron, yfirmaður gjörgæsludeildar Ambroise-Paré sjúkrahússins í París sagði í samtali við Le Monde að síðustu 10 daga hafi rúmlega 40% sjúklinga á gjörgæsludeildinni verið yngri en 60 ára. Það sé miklu hærra hlutfall en í fyrri bylgjum faraldursins þar sem það var um 30%. Þetta sagði hann um miðjan mars og nú hefur staðan versnað enn frekar að sögn blaðsins því nú er um helmingur sjúklinganna yngri en 60 ára.
Tölur frá heilbrigðisyfirvöldum sýna einnig að almennt hefur innlögnum 15-44 ára fjölgað og að sífellt fleiri, yngri en 64 ára, veikist alvarlega.
Sérfræðingar telja að ein augljósasta skýringin á þessu sé að þar sem svo margir í elstu hópum þjóðfélagsins hafi verið bólusettir sé veiran frekar á sveimi í öðrum aldurshópum. Læknar eru einnig þeirrar skoðunar að breska afbrigðið skipti hér máli. „Eina skýringin sem ég sé er breska afbrigðið,“ sagði Yves Cohen, yfirmaður gjörgæsludeildar sjúkrahúss í Bobigny í útjaðri Parísar í samtali við Le Monde.