„Fyrir mér lítur þetta svona út: Í fyrsta sinn höfðum við afsökun. Það voru um 100.000 dauðsföll í fyrstu bylgjunni. En það er mín skoðun að það hefði verið hægt að koma í veg fyrir mörg dauðsföll sem fylgdu í kjölfarið,“ sagði hún og vísaði þar til þeirra 450.000 sem hafa látist í kjölfar fyrstu bylgjunnar.
Í viðtalinu skýrði hún frá skoðunum sínum á viðbrögðum stjórnar Donald Trump við faraldrinum og það er ekki hægt að segja að hún hafi ausið Trump og stjórn hans lofi. Hún sagði að hægt hefði verið að koma í veg fyrir mörg dauðsföll ef gripið hefði verið fyrr til sóttvarnaaðgerða og ef yfirvöld hefðu gengið fram af meiri festu í baráttunni við heimsfaraldurinn. Hún sagði að dánartölurnar hefðu ekki orðið svona háar ef yfirvöld í ríkjum Bandaríkjanna og bæjum og borgum hefðu lært eitthvað af fyrstu bylgjunni.
Þetta kemur fram í heimildarmynd CNN „COVID WAR: The Pandemic Doctors Speak Out“ en þar er rætt við Birx og fimm aðra lækna úr heimsfaraldursteymi Trumpstjórnarinnar. Læknarnir segja frá hugleiðingum sínum um viðbrögðin við heimsfaraldrinum í Bandaríkjunum og hvað hefði verið hægt að gera öðruvísi.