Trump hefur sjálfur staðfest að hann vinni að stofnun nýs samfélagsmiðils og nú hafa nokkrir af helstu ráðgjöfum hans staðfest þetta. Corey Lewandowski, fyrrum kosningastjóri hans og aðalráðgjafi, segir að miðillinn fari í loftið eftir þrjá til fjóra mánuði. Bloomberg skýrir frá þessu.
„Þarna getur fólk látið heyra í sér og átt í samskiptum án þess að óttast skoðanakúgun eða að verða rekið af miðlunum,“ sagði Lewandowski í spjalli á hægrisinnaða miðlinum Newsmax um helgina.
Trump viðraði sjálfur þessa hugmynd í fyrsta sinn fyrir um viku síðan í hlaðvarpsþætti.
Lewandowski sagði að reiknað sé með að samfélagsmiðill Trump geti laðað „milljónir manna“ til sín. „Við fáum vettvang þar sem America-First boðskap forsetans verður deilt,“ sagði hann.
Twitter og Facebook lokuðu á Trump eftir að stuðningsfólk hans réðst á þinghúsið í Washington þann 6. janúar síðastliðinn. Ástæðan var að miðlarnir töldu að Trump hefði hvatt til ofbeldisverka.