Málið þykir ansi dularfullt og nýjustu vendingar í því draga ekki úr því. Eins og DV skýrði nýlega frá þá tilkynnti Bane lögreglunni um hvarf Heslop en ekkert hefur spurst til hennar síðan nóttina örlagaríku, aðfaranótt 8. mars.
Samkvæmt fréttum erlendra fjölmiðla þá dregur lögreglan nú frásögn Bane um að Heslop hafi farið með honum um borð í snekkjuna í efa. Það þykir styrkja þessar efasemdir að Bane hefur nú látið sig hverfa frá St. John og er hann nú eftirlýstur af bandarísku alríkislögreglunni FBI.
Lögreglan er nú að fara yfir upptökur úr eftirlitsmyndavélum í St. John til að reyna að sannreyna hvort frásögn Bane sé rétt. „Fram að þessu hefur ekkert komið fram sem staðfestir að þau hafi bæði snúið aftur um borð í snekkjuna þessa nótt,“ sagði Tony Derima, talsmaður lögreglunnar í St. John, um málið.
Bane vildi ekki heimila lögreglunni að leita um borð í snekkjunni og nú er hann sjálfur horfinn. Hann sást ganga um borð að kvöldi 24. mars og var hann með svefnpoka, strigaskó og handklæði meðferðis. Aðfaranótt 25. mars sigldi hann síðan á brott.