Áratugum saman hafa aðgerðarsinnar farið að landamærunum og sent stórar blöðrur norður yfir með ýmsum áróðri og upplýsingum til einangraðra íbúa einræðisríkisins. Þeir hafa einnig hvatt til uppreisnar gegn einræðisstjórninni.
Kóreuríkin eiga formlega séð enn í stríði, aðeins var samið um vopnahlé á sínum tíma. Samskipti þeirra hafa verið upp og niður í gegnum tíðina en eru með minna móti þessi misserin og þá kannski aðallega vegna heimsfaraldursins en einnig vegna óánægju einræðisstjórnarinnar með aðgerðir aðgerðarsinna sunnan landamæranna.
Stjórnvöld í Suður-Kóreu létu undan kröfum einræðisstjórnarinnar um að grípa inn í áróðurssendingarnar norður yfir landamærin og hafa nú í raun bannað gagnrýni á stöðu mannréttindamála hjá grönnunum í norðri.
Í nýjum lögum, sem voru samþykkt fyrir jól, kemur fram að bannað sé að setja upp hátalara við landamærin til að útvarpa áróðri og skilaboðum yfir þau. Einnig er bannað að setja upp veggspjöld, sem fjalla um Norður-Kóreu, nærri landamærunum og bannað er að senda áróðursrit og annað álíka norður yfir landamærin.