CNN segir að vísindamenn við University of Arizona hafi lagt til að byggð verði örk, sem verði „alþjóðleg trygging, fyrir 6,7 milljónir tegunda frá jörðinni. Örkin eða dómsdagshvelfingin verði varðveitt og falin í hellum og göngum undir yfirborði tunglsins. Hvelfingin mun verða varasjóður ef allt líf á jörðinni gjöreyðist. En það er langt í land með að þessi hugmynd geti orðið að veruleika.
Jekan Thanga, verkfræðiprófessor við University of Arizona, segir í yfirlýsingu að mannkynið hafi sloppið naumlega fyrir 75.000 árum þegar Toba ofureldfjallið gaus en í kjölfarið lækkaði hitastigið á jörðinni í 1.000 ár.