Sky News skýrir frá þessu. Fram kemur að í bókinni segi Swan að mannkynið standi frammi fyrir „tilvistarvanda“ varðandi frjósemi vegna þalíðs en það er efni sem er notað við plastframleiðslu. Efnið hefur áhrif á hormónaframleiðslu innkirtlanna.
Vegna þessarar mengunar fæðast sífellt fleiri sveinbörn með mjög litla getnaðarlimi að sögn Swan. Í bókinni skoðar hún hvernig „nútímaheimurinn ógnar gæðum sæðis, breytir æxlunarfærum og ógnar framtíð mannkyns“.
Í rannsókn sinni komst hún að því að sveinbörn, sem hafa komist í snertingu við þalín í móðurkviði, fæðast með styttra bil á milli endaþarmsopsins og kynfæranna en það tengist stærð getnaðarlimsins.
Þalín er notað við plastframleiðslu til að gera það sveigjanlegra og meðfærilegra. Swan segir að það berist í leikföng og matvæli og hafi skaðleg áhrif á þroska fólks.
Swan telur að miðað við hversu hratt frjósemi karla hrakar þá verði fæstir karlmenn færir um að framleiða lífvænlegt sæði þegar árið 2045 rennur upp.