Það þarf ekki að koma á óvart þó umræða um heimsfaraldur kórónuveirunnar hafi verið fyrirferðarmikil á fundinum því ástandið vegna veirunnar hefur lengi verið slæmt í Bandaríkjunum. En það er farið að ganga betur að bólusetja en áður og nú eru um 2,5 milljónir skammta af bóluefni gefnir á dag. Fjórði hver Bandaríkjamaður hefur nú fengið að minnsta kosti fyrri skammt bóluefnis. Þegar Biden tók við embætti hét hann því að búið yrði að gefa 100 milljónir skammta á fyrstu 100 dögum hans í embætti. Það markmið náðist fyrir nokkrum dögum eða þegar hann var búinn að vera 58 daga í embætti. Í gær sagði hann að nýja markmiðið væri 200 milljónir skammta á fyrstu 100 dögunum.
Þegar hann var spurður hvort hann muni gefa kost á sér til endurkjörs 2024 hikaði hann aðeins en sagði síðan að það væri ætlunin og hann vænti þess. „En ég virði örlögin. Ég hef aldrei geta skipulagt neitt þrjú og hálft ár fram í tímann,“ sagði hann en ef hann gefur kost á sér á nýjan leik verður hann orðinn 82 ára.
Þegar hann var spurður hvort hann ætti þá von á því að takast á við Donald Trump á nýjan leik var svarið: „Ég veit ekki einu sinni hvort Repúblikanaflokkurinn verður til þá.“
Hann var einnig spurður út í fyrirætlanir Repúblikana um að þrengja kosningalögin í mörgum ríkjum en það telja Demókratar vera gert til að gera minnihlutahópum erfiðara fyrir með að kjósa. Biden er ekki par hrifinn af þessum fyrirætlunum: „Þetta er sjúkt. Það er tillaga um að banna að fólki sé fært vatn þegar það bíður í röð á kjörstað. Þetta er sjúkt.“
Eitt af heitustu málefnunum á fundinum var straumur innflytjenda að landamærunum við Mexíkó. Reiknað er með að fjöldi ólöglegra innflytjenda verði mikill í ár, sá mesti í 20 ár. Gagnrýnendur hafa sagt að þetta sé vegna þess að Biden hafi slakað á stefnunni í innflytjendamálum og að margir innflytjendur telji að Biden muni taka á móti þeim opnum örmum. En Biden var ekki alveg sammála þessu. „Mér líkar við hugsunina um að þeir komi af því að ég sé góður maður. En nei, þetta tengist árstímanum og mörgum pólitískum vandamálum í Mið- og Suður-Ameríku.“
Á fundinum kom skýrt fram að stjórn Biden er með harða stefnu í garð Kína. Antony Blinken, utanríkisráðherra, hefur margoft lýst yfir áhyggjum af stefnu Kína í garð Taívan og veru kínverska hersins nærri eyjunni. Biden tók í sama streng á fundinum án þess að nefna nein sérstök dæmi. Hann ræddi til dæmis um mikilvægi þess að Bandaríkin og ESB standi saman gegn Kína. „Þetta er val á milli einræðis og lýðveldis. Ég hef þekkt Xi Jinping (forseta Kína, innsk. blaðamanns) lengi. Það er ekki vottur af lýðræði í beinum hans en hann er snjall,“ sagði hann.
Hann kom einnig inn á málefni Norður-Kóreu og sagðist hafa áhyggjur af eldflaugaskotum einræðisríkisins.