Samkvæmt niðurstöðunum þá aukast líkurnar á að fá elliglöp um 44% ef fólk borðar einn skammt af beikoni á dag. Daily Mirror skýrir frá þessu.
Fram kemur að vísindamenn við Leeds Universitet hafi notað gögn 500.000 manns til að rannsaka hugsanleg tengsl kjötáts og neikvæðra áhrifa þess á heilastarfsemina.
Unnar kjötvörur á borð við pylsur og hamborgara auka líkurnar á að heilinn verði fyrir neikvæðum áhrifum. Sumar tegundir óunnins kjöts, til dæmis nautakjöt, svínakjöt og kálfakjöt, hafa hins vegar þveröfug áhrif og geta veitt vernd gegn elliglöpum að sögn vísindamannanna.
Fólk sem borðar 50 grömm af óunnu kjöti á dag á síður á hættu að þróa með sér elliglöp segir í niðurstöðum rannsóknarinnar og minnka líkurnar á því um 20% við þetta. Rannsóknin hefur verið birt í American Journal of Clinical Nutrition.
Einnig kemur fram að það að borða einn skammt af beikoni á dag auki líkurnar á elliglöpum um 44%. Janet Cade, prófessor, vann að rannsókninni og segir hún að allt það sem sé hægt að rannsaka varðandi áhættuþætti elliglapa geti orðið til þess að hægt verði að fækka þeim sem þrói með sér elliglöp.