Það er fasteignasalan Realtor.com sem er með byrgið til sölu og er það falt fyrir sem svarar til um 219 milljóna íslenskra króna. Eignin er ný og er sögð vel úr garði gerð og geti veitt fólki mikla vernd og öryggi.
Frábært útsýni er frá byrginu, svona ef íbúarnir þora út því það eru auðvitað engir gluggar á því. Það var upphaflega byggt sem byrgi til að vernda fólk gegn geislavirkri úrkomu. Nú eru fjórar íbúðir í því. Hver og ein með svefnherbergjum, baðherbergi, eldhúsi og stofu. Í einni íbúðinni er tómstundaherbergi með leiktækjum fyrir íþróttaáhugafólk.
Ef að heimsendir eða aðrar hamfarir eru yfirvofandi er hægt að loka sig af frá umheiminum í byrginu. Hver íbúð er með kjallara þar sem er hægt að geyma nauðsynjar á borð við mat, drykk, lyf og auðvitað skotvopn fyrst um Bandaríkin er að ræða.
Byrgið getur haldið 10-12 gráðu hita en það er hitakerfi í því til að hægt sé að hafa hærri hita en það. Að auki er loftræstingarkerfi í því þannig að það ætti ekki að væsa um fólk.
Fyrir þá sem vilja ekki loka sig algjörlega inni þá er Paradise Valley sagt vera draumaland útivistarfólks, hjólreiðar, útreiðar og stangaveiði er meðal þess sem svæðið hefur upp á að bjóða.