Yfirvöld á Bandarísku Jómfrúaeyjum, þar sem snekkjan lá við ankeri, hófu þegar leit að Heslop en hún hefur ekki enn fundist. Nú hefur málið tekið nýja stefnu byggða á nokkrum atriðum. Eitt þeirra er að Bane tilkynnti um hvarf Heslop um miðja nótt en það var ekki fyrr en um hádegi sem strandgæslunni var tilkynnt um málið. BBC hefur eftir Andrew Baldwin, nánum vini Heslop, að þetta sé mjög undarlegt. „Hún hefði ekki bara látið sig hverfa sporlaust. Hún er greind og skynsöm, þetta er svo ólíkt henni. Þetta stenst bara ekki,“ sagði hann.
Þegar hún hvarf urðu farsími hennar, greiðslukort, vegabréf og spjaldtölva eftir um borð í Siren Song. Lögreglan lagði hald á þessa muni.
Nokkrum dögum eftir að Bane tilkynnti um hvarf Heslop réði hann sér lögmann sem ráðlagði honum að tjá sig ekki frekar um málið. Þetta var kúvending því hann hafði verið mjög samvinnuþýður við lögregluna og strandgæsluna fram að því. Ekki dregur það úr grunsemdum manna í garð Bane að nú hefur hann neitað lögreglunni um heimild til að rannsaka snekkjuna enn frekar.
Bane og Heslop höfðu búið saman um borð í snekkjunni mánuðum saman og sigldu með ferðamenn um Karíbahaf.
Vinir og ættingjar Heslop hafa sett Facebooksíðu á laggirnar til að deila upplýsingum um málið.