Biden ávarpaði bandarísku þjóðina í gær og sagðist „ekki þurfa að bíða mínútu lengur með að taka skynsamleg skref sem muni bjarga mannslífum í framtíðinni,“ og til að „hvetja félaga mína í fulltrúadeildinni og öldungadeildinni til aðgerða“.
„Þetta er ekki og ætti ekki að vera flokkpólitískt vandamál. Þetta er bandarískt vandamál. Þetta mun bjarga mannslífum. Bandarískum lífum og við verðum að gera eitthvað,“ sagði Biden.
Bandaríkjamenn hafa árum saman heyrt hverja hryllingsfréttina af annarri um fjöldamorð í skólum, næturklúbbum, kvikmyndahúsum, verslunum og víðar. Nú er staðan sú að mikill meirihluti landsmanna vill herða vopnalöggjöfina en Repúblikanar hafa lengi verið á móti breytingum á henni og telja að það brjóti gegn stjórnarskrárvörðum rétti landsmanna til að bera vopn að herða reglurnar.
Fyrr í mánuðinum samþykkti meirihluti Demókrata í fulltrúadeildinni tvö frumvörp sem eiga að styrkja ferlið í tengslum við bakgrunnskönnun á þeim sem vilja kaupa skotvopn. Ekki er talið líklegt að frumvörpin verði samþykkt í öldungadeildinni því til þess að svo fari verða að minnsta kosti níu Repúblikanar að greiða atkvæði með þeim en flokkarnir eru báðir með 50 sæti í deildinni.
Jen Psaki, samskiptastjóri Biden, sagði í gær að stjórn Biden íhugi nú að fara aðrar leiðir til að taka á málum tengdum vopnum og skotárásum. Þar á meðal sé að Biden nýti rétt sinn til að gefa út forsetatilskipanir til að þvinga breytingar í gegn.