„Munurinn á fjölda bólusetninga í ríku löndunum og þeim sem eru gerðar í gegnum Covax-samstarfið verður fáránlegri með hverjum deginum sem líður,“ sagði Tedros Adhanom Ghebreyseus, framkvæmdastjóri WHO í gær.
Mörg rík lönd hafa lofað að styðja Covax-samstarfið sem var sett á laggirnar af WHO en því er ætlað að tryggja fátækum löndum nægilegt magn bóluefna gegn kórónuveirunni. En sum lönd hafa ekki fengið einn einasta skammt enn sem komið er. Á sama tíma hafa milljónir manna verið bólusettar í ríkum löndum sem hafa pantað tvöfalt meira af bóluefnum en þarf fyrir íbúa þeirra.
„Lönd sem eru byrjuð að bólusetja ungt og heilsuhraust fólk, sem er ekki í mikilli hættu varðandi COVID-19, gera það á kostnað heilbrigðisstarfsfólks, eldra fólks og annarra áhættuhópa í öðrum löndum,“ sagði Ghebreyseus en hann hefur margoft hvatt ríki heims til að skipta bóluefnunum jafnt á milli sín og segir að ef það verði ekki gert aukist líkurnar á að stökkbreytt afbrigði veirunnar dreifist um allan heim.