Norska ríkisútvarpið, NRK, segir að fólk, sem var kallað til yfirheyrslu sem vitni skömmu eftir hvarf Anne-Elisabeth, hafi að undanförnu verið beðið um frekari upplýsingar. Meðal annars hefur fólkið verið beðið um að afhenda lögreglunni gamla farsíma, fjárhagsupplýsingar og að veita lögreglunni aðgang að heimabönkum sínum. NRK segir að lögreglan hafi farið fram á þetta síðasta haust.
NRK segir einnig að önnur vitni hafi verið kölluð til yfirheyrslu á nýjan leik, tveimur og hálfu ári eftir að Anne-Elisabeth hvarf.
Aðalkenning lögreglunnar er að Anne-Elisabeth hafi verið myrt og að lausnargjaldskrafan, sem var sett fram, hafi aðeins verið liður í blekkingaraðgerð til að leyna morðinu. Telur lögreglan að Tom Hagen hafi átt hlut að máli og að ástæðan fyrir því hafi verið erfiðleikar í hjónabandinu. Hann neitar sök.
NRK segir að tvö af vitnunum, hið minnsta, sem athygli lögreglunnar beinist nú að hafi verið yfirheyrð áður. Segist NRK hafa heimildir fyrir að lögreglan hafi ekki fundið nein tengsl á milli Tom Hagen og hvarfs eiginkonu hans.