Nýja ríkisstjórnin tók við völdum eftir viðræður sem Sameinuðu þjóðirnar höfðu milligöngu um.
„Ég sver við guð almáttugan að gera skyldu mína af alvöru og heiðarleika,“ sagði Abdulhamid Dbeibah, forsætisráðherra, þegar hann sór embættiseið fyrir framan þingmenn og fulltrúa Vesturlanda, Tyrklands og Egyptalands.
Nýja ríkisstjórnin tekur við af stjórn sem SÞ viðurkenndu einnig. Hún réði yfir höfuðborginni Trípólí og norðvesturhluta landsins. Hún stóð í langvarandi átökum við uppreisnarhreyfingar í austurhluta landsins sem njóta stuðning Rússa og Sameinuðu arabísku furstadæmanna.
Hvorki Rússland né Sameinuðu arabísku furstadæmin sendu fulltrúa til athafnarinnar á mánudaginn en bæði löndin hafa fagnað nýju ríkisstjórninni.
Hún á stór og mikil verkefni fyrir höndum. Til dæmis stendur til að efna til lýðræðislegra kosninga en allir deiluaðilar hafa lýst yfir stuðning við það. En þar með er ekki sagt að allt muni fara fram með ró og spekt því margir hópar uppreisnarmanna og málaliða eru í landinu og eru reiðubúnir til að halda ofbeldinu áfram. Þessir hópar ráða yfir ýmsum svæðum og opinberum stofnunum.