Rannsóknin var birt af the Royal Society í Bretlandi en höfundar hennar eru Hal Whitehead og Luke Rendell, sem vinna við dýrarannsóknir, og Tim D Smith, gagnafræðingur. Rannsókn þeirra beindist að því að svara gamalli spurningu: „Ef hvalir eru svo greindir, af hverju bíða þeir þá bara eftir að verða drepnir?“ Svarið við þessu er einfalt samkvæmt niðurstöðum rannsóknarinnar: Hvalirnir biðu ekki.
Rannsóknin byggist á skipsdagbókum frá nítjándu öld þar sem veiðum á búrhvölum í norðanverðu Kyrrahafi er lýst í smáatriðum. Höfundar rannsóknarinnar komust að því að á nokkrum árum hafi hitni hvalaskyttnanna minnkað um 58% en þetta leiðir þá að þeirri niðurstöðu að hvalirnir hafi skipst á upplýsingum og á grundvelli þeirra hafi þeir breytt hegðun sinni. Þeir hafi einfaldlega lært af dýrkeyptum mistökum í upphafi kynna sinna af mönnum.
The Guardian hefur eftir Hal Whitehead, að búrhvalir hafi í gegnum tíðina fundið leiðir til að bregðast við árásum háhyrninga sem hafi verið einu óvinir þeirra áður en menn komu til sögunnar. Til að verjast háhyrningum hafi þeir myndað hring þar sem sporðar þeirra sneru út á við og með þeim héldu þeir háhyrningunum frá sér. En tækni af þessu tagi gerði hvalveiðimönnum bara auðveldara fyrir að „slátra þeim,“ sagði hann.
Búrhvalir eru mjög þróuð dýr félagslega séð og geta átt í samskiptum sín á milli yfir langar vegalengdir. Þeir gætu því hafa varað aðra búrhvali við skipaferðum og hvalveiðum á svipaðan hátt og þeir skiptast á upplýsingum um hvar æti er að finna. Búrhvalir eru með stærsta heila allra dýrategunda og því er að mati Whitehead ekki erfitt að ímynda sér að þeir hafi skilið hvað var að gerast.
Hann sagði að hvalveiðimennirnir hafi áttað sig á að hvalirnir voru að reyna að sleppa frá þeim og sáu að dýrin virtust eiga í samskiptum sín á milli þar sem þau vöruðu við hvalveiðiskipunum. Þeir sáu að hvalirnir hættu hefðbundinni varnarstöðu sinni og syntu á móti vindi til að sleppa undan hvalveiðiskipunum sem voru seglskip og gátu ekki haldið í við dýrin á móti vindi.
Telja þeir félagarnir að þessi hegðun hvalanna geti gefið vísbendingu um að þeir reyni að laga sig að breyttu umhverfi, mengun, skipaferðum og öðru sem ógnar þeim í dag. Eitt geti þeir þó ekki ráðið við og það er hávaðinn, sem stafar frá okkur mönnunum, í heimshöfunum.