Rautt hár er afleiðing stökkbreytingar hjá geni. Margir vísindamenn hafa rannsakað hvaða áhrif þetta hefur á líkamann.
Samkvæmt umfjöllun klikk.no þá er rauðhært fólk með hærri sársaukaþröskuld en aðrir. Það er sama genið og veldur háralitnum sem veldur þessu. Danskir vísindamenn komust að þessu 2012 en að auki gerir þetta stökkbreytta gen rauðhært fólk þolnara fyrir sterkum mat, þrýstingi á líkamann og stungum.
Fram kemur að einnig hafi verið sýnt fram á að rauðhærðar konur séu síður móttækilegar fyrir staðdeyfingu. Rannsóknir hafa einnig sýnt að rauðhært fólk þurfi allt að 20% meira magn af svæfingaefni en aðrir en niðurstöður rannsókna um þetta eru þó ekki samhljóða.
Einn af stóru kostunum við rautt hár er að það verður ekki grátt, svona fyrir þá sem óttast að fá grátt hár. Hárið missir bara rauða litinn og verður hvítt. Rauðhært fólk er yfirleitt með færri hár á höfðinu en aðrir en þau eru þykkari en hár af öðrum lit. Tæplega eitt prósent rauðhærðra eru bláeygðir.