fbpx
Laugardagur 11.janúar 2025
Pressan

„Þá fattaði ég að þau héldu bæði framhjá með sama manninum“

Kristján Kristjánsson
Miðvikudaginn 17. mars 2021 05:26

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Fyrst kom eiginkonan og vildi skrifta. Hún sagðist hafa haldið fram hjá eiginmanni sínum með sameiginlegum vini þeirra, karlmanni. Því næst kom eiginmaður hennar í skriftastólinn og sagðist hafa haldið fram hjá eiginkonunni með sameiginlegum vini þeirra, karlmanni. „Þá fattaði ég að þau héldu bæði framhjá með sama manninum. Það var erfitt að fara ekki að hlæja.“

Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri franskri bók þar sem 40 kaþólskir prestar segja frá ýmsu sem þeir hafa heyrt í skriftastólnum. Bókin heitir „Je vous pardonne tous vos pêchés” sem má þýða sem „Ég fyrirgef þér allar þínar syndir“. Það var franski blaðamaðurinn Vincent Mongaillard sem skrifaði hana.

Hann fékk prestana til að segja frá með því að heita þeim algjörri nafnleynd því þeir eiga á hættu að missa embætti sín ef þeir brjóta þagnareiðinn sem ríkir um skriftir.

„60-70% af skriftunum snúast um framhjáhald, tvöfalt líf, klámfíkn, heimsóknir til vændiskvenna. Þetta kemur ótrúlega oft fyrir,“ sagði einn prestanna að sögn Le Parisien en kynlíf virðist koma mjög oft við sögu þegar fólk fer til skrifta.

Eitt af kynlífstengdu efnunum, sem oft kemur við sögu, er sjálfsfróun. Þar játar ungt fólk á sig sjálfsfróun, það gera foreldrar þeirra og prestar einnig. Hvað varðar prestana þá snúast skriftir þeirra nær alltaf um niðurbældar kynlífslanganir sem þeir reyna að glíma við með sjálfsfróun eða klámi.

„Þegar ungt fólk skýrir frá sjálfsfróun er erfitt að útskýra fyrir því að það sé ekki synd. Það kemur þeim á óvart,“ sagði einn presturinn.

Í bókinni kemur einnig fram að margir prestar finni til sektar yfir að vera samkynhneigðir og það þrátt fyrir að Frans páfi styðji rétt samkynhneigðra til að stofna fjölskyldu.

En það er fleira en bara kynlífsjátningar sem prestarnir hafa heyrt.  Einn sagðist hafa starfað í fangelsi eitt sinn og þar hafi einn fanginn játað fyrir honum að hafa framið morð. Síðar sá presturinn í fjölmiðlum að maðurinn hafði verið sýknaður af ákæru um það. „Það var erfitt að verða vitni að því,“ sagði hann. Hann sagðist einnig oft hafa þurft að takast á við mikla reiði þegar eldri menn játuðu sifjaspell á sig. „30 eða 40 árum eftir að þeir eyðilögðu heila fjölskyldu játa þeir. Þá langaði mig að gefa þeim á kjaftinn,“ sagði hann.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Fyrir 4 dögum

Forsætisráðherra Kanada stígur til hliðar

Forsætisráðherra Kanada stígur til hliðar
Pressan
Fyrir 5 dögum

Lýsir sorglegri sögu mannsins í Teslunni – Sá hluti sem höfðu mikil áhrif á hann

Lýsir sorglegri sögu mannsins í Teslunni – Sá hluti sem höfðu mikil áhrif á hann