fbpx
Föstudagur 22.nóvember 2024
Pressan

Vill hefja leit að flugi MH370 á nýjan leik

Kristján Kristjánsson
Þriðjudaginn 16. mars 2021 05:20

MH370 hvarf með 239 manns um borð.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Nú eru um tvö ár síðan formlegri leit að flugi MH370 var hætt en flugið, eða öllu heldur flugvélin, hvarf sporlaust yfir Indlandshafi 2014. En nú er hugsanlegt að leit hefjist á nýjan leik.

Þegar flugvélar hverfa uppgötvast það yfirleitt þegar flugumferðarstjórar missa sambandið við þær. Í kjölfarið hefst leit og rannsókn á atburðinum og þeim mannlega harmleik sem átti sér stað í slysinu. En atburðarásin var öðruvísi þegar flug MH370 hvarf. Vélin var á leið frá Kuala Lumpur í Malasíu til Peking í Kína þann 8. mars 2014. Um 40 mínútum eftir flugtak frá Kuala Lumpur misstu flugumferðarstjórar samband við vélina sem var þá yfir Suður-Kínahafi. Um borð voru 239 farþegar og áhafnarmeðlimir. Enn í dag er ekki vitað hver örlög þeirra eða flugvélarinnar urðu nema hvað að nær öruggt er að flugvélin hrapaði. Það gerði hvarf vélarinnar enn dularfyllra að eftir að hún hvarf var henni flogið yfir Indlandshaf.

Skömmu eftir flugtak var vélinni beygt um 180 gráður, henni flogið yfir fyrri flugleið sína yfir Malasíu og stefnan tekin í suður. Áður höfðu staðsetningarkerfi hennar verið gerð óvirk. En út frá gervihnattagögnum er vitað að vélin hélt áfram að fljúga í sex klukkustundir eftir að hún hvarf af ratsjám. Langlíklegast er að hún hafi síðan hrapað í sjóinn þar sem eldsneyti hennar hafi verið búið.

En hvað gerðist frá því að flugmennirnir áttu síðast í samskiptum við flugturninn í Kuala Lumpur þar til vélin hrapaði eru bara getgátur og þær hafa verið margar frá upphafi. Ótal samsæriskenningar hafa verið settar fram, allt frá því að vélinni hafi verið rænt, að flugstjórinn hafi vísvitandi látið hana hrapa til að taka eigið líf, að leynilegur farmur hafi verið um borð, tryggingasvik, morð og jafnvel að geimverur hafi komið að málum eða að erlend ríki hafi tekið stjórn vélarinnar yfir í gegnum gervihnött.

Mikil leit hefur verið gerð að vélinni í gegnum árin og hefur verið leitað út frá útreikningum á hraða hennar og stefnu en án árangurs. Áströlsk yfirvöld tóku að sér að annast leitina á árunum 2014 til 2017 og náði hún yfir 120.000 ferkílómetra hafsvæði.

2018 gerði leitarfyrirtækið Ocean Infinity mikla leit að vélinni byggða á útreikningum malasískra yfirvalda. Þá var 112.000 ferkílómetra svæði fínkembt en án árangurs.

2019 gáfust malasísk yfirvöld upp á að leita frekar að vélinni og sögðu að engar líklegar skýringar eða kenningar hefðu komið fram um hvarf hennar eða hvar hún hefði endað.

En það er óhætt að segja að enginn vafi leiki á að vélin hrapaði í sjóinn því 33 hlutar úr henni hafa fundist á ströndum á Madagaskar, Máritíus, Tansaníu og Suður-Afríku.

Á ráðstefnu um málið í síðustu viku sagði Peter Foley að ný rannsókn  gæti bent á staðinn þar sem vélin hrapaði. Hann stýrði rannsókn ástralska yfirvalda á hvarfi vélarinnar og hefur ekki getað slitið sig frá því. Hann styður hugmyndir um að leit verði hafin á nýjan leik á 25.000 ferkílómetra hafsvæði nokkur þúsund kílómetra vestan við Ástralíu. Svæðið nær yfir svæði sem áður hefur verið leitað á en þar er svo mikið af neðansjávarfjöllum og dölum að Foley telur mjög líklegt að sérfræðingar hafi rétt fyrir sér þegar þeir benda á þetta svæði sem líklegan stað. Hann reynir nú að vekja athygli á þessu og afla fjár til leitarinnar.

Í ágúst á síðasta ári fannst hluti af væng í Suður-Afríku. Rannsókn á brakinu leiddi í ljós að stykkið hefði rifnað af flugvél sem steyptist stjórnlaus í hafið úr mikilli hæð. Sérfræðingar í hafstraumum segja að brakið geti hafa borist frá svæðinu, sem Foley bendir á, með hafstraumum.

Samgöngumálaráðherra Malasíu sagði á ráðstefnunni að hann væri reiðubúinn til viðræðna um að leit verði hafin á nýjan leik en lagði áherslu á að góð rök þurfi til að það verði gert. Hann sagði að malasísk, kínversk og áströlsk yfirvöld hafi ekkert til sparað til að reyna að leysa málið. Á næstu mánuðum mun koma í ljós hvort vilji og peningar eru til staðar til að hefja leit að nýju í þeirri von að hægt verði að leysa stærstu ráðgátu flugsögunnar á þessari öld.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Í gær

Hvíthákarl varð manni að bana

Hvíthákarl varð manni að bana
Pressan
Í gær

Þótti dóttirin vera „of falleg til að geta verið dóttir hans“ – DNA-próf afhjúpaði ótrúlegan sannleikann

Þótti dóttirin vera „of falleg til að geta verið dóttir hans“ – DNA-próf afhjúpaði ótrúlegan sannleikann