Á síðustu árum hafa Sameinuðu þjóðirnar og fleiri samtök lýst því hvernig milljónum Úígúra og öðrum minnihlutahópum múslima er haldið föngnum í fangabúðum. Kínverjar segja að ekki sé um fangabúðir að ræða heldur sé verið að vinna gegn öfgahyggju með því að fræða fólk sem dvelur í búðunum. En í fyrrnefndri skýrslu kemur fram að fangabúðirnar ýti undir þjóðarmorð.
„Úígúrar þjást mikið, bæði andlega og líkamlega, vegna kerfisbundinna pyntinga og illrar meðferðar. Þar má nefna nauðganir, kynferðisofbeldi, misnotkun og opinbera niðurlægingu sem verðir í fangabúðunum standa fyrir,“ segir í skýrslunni.
Í skýrslunni kemur einnig fram að konur séu þvingaðar í ófrjósemisaðgerðir og ungum körlum sé haldið föngnum. Með þessu koma Kínverjar í veg fyrir að Úrígúar geti eignast börn og viðhaldið sér.
Skýrsluhöfundar segja einnig að Kínverjar reyni að „útrýma“ sjálfsvitund og menningu Úígúra.
Úígúrar búa í Xinjianghéraðinu í vesturhluta Kína en þeir eiga rætur að rekja til Tyrklands. Þeir eru um 11 milljónir og búa flestir í Xinjiang. 1949 voru þeir í meirihluta í héraðinu en eru nú í miklum minnihluta eftir mikla flutninga han-Kínverja til héraðsins.