Amnesty birti í gær skýrslu um stöðu mála í Mjanmar en hún er byggð á 50 myndbandsupptökum af grimmdarlegri meðferð hersins á mótmælendum. Dpa-fréttastofan segir að talið sé að 60 mótmælendur, hið minnsta, hafi verið drepnir af hernum til þessa.
Amnesty segir að herinn beiti taktík og vopnum sem séu venjulega aðeins notuð á vígvellinum. Joanne Mariner, hjá Amnesty, sagði í fréttatilkynningu að það sé ekkert nýtt að herinn í Mjanmar beiti þessum aðferðum en aldrei fyrr hafi fjöldamorðin verið í beinni útsendingu til heimsins. Hún sagði að þetta væru ekki verk einstakra yfirmanna heldur snúist þetta um æðstu yfirmenn hersins sem hafi gerst sekir um brot gegn mannkyninu.
Allt frá því að herinn tók völdin hafa fjölmenn mótmæli staðið yfir í landinu en herinn hefur mætt þeim af mikilli hörku. Amnesty segir að leyniskyttum hafi verið beitt gegn mótmælendum og einnig vélbyssum.