Observer skýrir frá þessu. Fram kemur að samtök flutningabílafyrirtækja hafi sent ríkisstjórninni bréf í byrjun mánaðarins þar sem bent er á að samtökin hafi mánuðum saman varað við að vandræði myndu fylgja Brexit og að finna yrði leiðir til að leysa úr málunum. Þessar aðvaranir hafi að mestu verið hunsaðar.
Samdrátturinn var í flutningum með ferjum yfir Ermasund og í gegnum Ermasundsgöngin. Í bréfi samtakanna til ríkisstjórnarinnar segir að þau hafi lengi lagt áherslu á að fjölga þyrfti tollvörðum til að aðstoða fyrirtækin við þá miklu skriffinnsku og pappírsvinnu sem fylgi nú flutningum yfir Ermasund. Nú eru um 10.000 tollverðir að störfum en það er aðeins fimmtungur þess fjölda sem samtökin telja nauðsynlegan til að hægt sé að takast á við þá miklu skriffinnsku sem fylgir útflutningi eftir Brexit.
Auk þess að útflutingur dróst mikið saman þá segja fulltrúar samtakanna að 65-75% þeirra flutningabíla sem komu til Bretlands hafi farið tómir aftur til meginlandsins því engar vörur hafi beðið flutnings. Ástæðan séu tafir við pappírsvinnu og að sum bresk fyrirtæki hafi tímabundið stöðvað útflutning til ESB.