Samkvæmt frétt The Guardian hafa samtökin því hvatt grísk stjórnvöld til að opinbera upplýsingar um tilraunirnar á svæðinu en þar var áður herstöð.
Í tilkynningu frá samtökunum er haft eftir Belkis Willie, rannsakanda hjá þeim, að grísk yfirvöld hafi vísvitandi reist flóttamannabúðir á skotæfingarsvæði og lokað augunum fyrir hugsanlegri heilsufarshættu sem íbúum þar og starfsfólki stafar af þessu. Eftir margar vikur hafi þau óviljug tekið sýni til rannsóknar en um leið neitað að hætta væri á blýmengun á svæðinu. Sjö vikur hafi síðan liðið þar til niðurstaðan lá fyrir en óháðir sérfræðingar hafi ekki fengið að greina sýnin eða grípa til nauðsynlegra aðgerða til að vernda íbúa og starfsfólk og upplýsa þá um hugsanlega hættu sem að heilsu þeirra stafar.
Flóttamannabúðirnar sem um ræðir heita Mavrovouni en þar eru 7.615 flóttamenn samkvæmt tölum frá UNHCR, Flóttamannahjálp SÞ. Búðirnar voru reistar í skyndingu eftir að Moria flóttamannabúðirnar eyðilögðust í eldsvoða.