Umsóknin kemur í kjölfar skýrslu frá 29. janúar þar sem kemur fram að bóluefni fyrirtækisins veiti 66% vernd gegn veirunni. Ólíkt þeim bóluefnum sem nú þegar hafa verið tekin í notkun þarf bara einn skammt af bóluefni Johnson & Johnson. Fyrirtækið reiknar með að bandaríska lyfjastofnunin gefi út neyðarleyfi nú í febrúar.
„Þetta er bóluefni sem getur breytt miklu með aðeins einum skammti,“ sagði Paul Stoffells, rannsóknastjóri Johnson & Johnson í síðustu viku að sögn The New York Times. Þar vísaði hann til þess að tvo skammta þarf af bóluefnum Pfizer/BioNTech, Moderna og AstraZeneca.
Bandarísk stjórnvöld hafa samið um kaup á 100 milljónum skammta frá Johnson & Johnson og greiða einn milljarð dollara fyrir. Þau hafa einnig tryggt sér kauprétt að 200 milljónum skammta til viðbótar.
Johnson & Johnson hefur sagt að fyrirtækið geti afgreitt bóluefni um leið og leyfi fæst fyrir notkun þess. Fyrirtækið stefnir á að afhenda ríkjum heims einn milljarð skammta á árinu. Það verður framleitt í Bandaríkjunum, Evrópu, Suður-Afríku og Indlandi.