The New York Times skýrir frá þessu. Fram kemur að þetta verði fyrsta geimferðin þar sem enginn af geimförunum er atvinnugeimfari frá bandarísku geimferðastofnuninni NASA eða öðrum opinberum geimferðastofnunum.
Í síðustu viku var tilkynnt að Axiom Space hafi valið fjóra menn til að fara til Alþjóðlegu geimstöðvarinnar en þeir greiða allir fyrir ferðina sem mun vara í átta daga. Hver þeirra greiðir 55 milljónir dollara.
En í ferð Isaacman er pláss fyrir fjóra geimfara. Hann tekur sjálfur eitt sæti en ætlar að finna þrjá samferðamenn sína á næstunni. Tvö sæti gefur hann St. Jude Children‘s Research sjúkrahúsinu í Memphis en þar fá börn ókeypis læknismeðferð og þar er unnið að þróun lyfja og læknismeðferðar gegn krabbameini í börnum. Annað sætið fær starfsmaður á sjúkrahúsinu sem læknaðist af krabbameini á barnsaldri á sjúkrahúsinu. Hinu sætinu verður úthlutað með einhverskonar happdrætti. Markmiðið með því er að safna 200 milljónum dollara fyrir sjúkrahúsið. Ekki þarf að leggja fram fé til að taka þátt í happdrættinu en hver dollari, sem gefinn er, gefur 10 miða í happdrættinu.
Fyrir áhugasama Íslendinga eru slæmu fréttirnar þær að aðeins bandarískir ríkisborgarar, 18 ára og eldri, geta tekið þátt í happdrættinu. Sá eða sú heppna verða að vera lægri en 198 sm og vega minna en 113 kíló. Að auki þarf viðkomandi að standast andlegt og líkamlegt próf. Á fréttamannafundi á mánudaginn sagði Elon Musk að ef fólk getur farið í hressilega rússibanaferð þá geti það vel farið út í geim, álagið sé svipað.
Þriðja sætið fer til frumkvöðuls en Isaacman efnir til sérstakrar keppni fyrir frumkvöðla um sætið.