Lindell, sem er 59 ára, á fyrirtækið My Pillow (Koddinn minn) sem selur sængurfatnað á netinu og í sjónvarpsauglýsingum. Saga hans er dæmigerð saga um bandaríska drauminn. Lindell er frá Minnesota. Hann hefur tekist eitt og annað á hendur á lífsleiðinni, allt frá teppahreinsun til fjárhættuspila til svínaræktar. En það var ekki fyrr en hann var algjörlega á botninum að hann fann rétta taktinn, bæði viðskiptalega og pólitískt.
Árum saman var hann háður áfengi og fíkniefnum, þar á meðal hinu mjög svo ávanabindandi krakk-kókaíni. Þetta kostaði hann hjónabandið og megnið af auðæfunum. En 2004 fékk hann bestu hugmynd lífsins sem hann segir að hafi komið til hans í draumi. „Ég vaknaði um nóttina, um klukkan tvö, og um allt hús var búið að skrifa „My Pillow“, sagði hann fyrir nokkrum árum í samtali við CNBC. Koddaævintýrið var hafið og Lindell hóf að selja kodda og fleira af miklum krafti. Hann kemur oft sjálfur fram í sjónvarpsauglýsingum, sjónvarpsmörkuðum og því um líku, og dásamar vörur sínar.
Hann hefur heldur ekki legið á skoðunum sínum hvað varðar trúmál og stjórnmál. Hann segir að það hafi verið opinberun, sem hann fékk 2009, sem varð til þess að hann hætti að nota fíkniefni og áfengi og beindi allri orku sinni í koddana.
Hugsanlega væri Lindell bara einn af ríkum frumkvöðlum Bandaríkjanna, hann er talinn eiga um 300 milljónir dollara, og nær óþekktur ef hann hefði ekki hitt Donald Trump 2016. Það breytti lífi hans. Lindell sá fyrirmynd í Trump, mann sem líkist honum sjálfum mikið. Báðir með áratuga reynslu úr viðskiptalífinu, munurinn á þeim er þó sá að Trump erfði auð sinn en Lindell braust sjálfur til efna, og báðir hafa þörf fyrir að láta bera á sér í fjölmiðlum.
Lindell var dyggur stuðningsmaður Trump í forsetakosningunum 2016 og hann var mjög ánægður þegar Trump sigraði og flutti inn í Hvíta húsið. Það skemmdi ekki fyrir að þar hallaði Trump höfði sínu á bandarískan kodda, framleiddan í verksmiðju Lindell í Minnesota.
Lindell hélt áfram stuðningi sínum við Trump og lét málefni, sem Trump lét sig varða, sig miklu skipta. Þegar heimsfaraldur kórónuveirunnar barði á dyr fyrir um ári síðan í Bandaríkjunum hófst mikil leit að kraftaverkameðulum gegn veirunni skæðu. Lindell var strax framarlega í flokki. Trump talaði ákaft fyrir notkun hydroxyklorokin og ræddi einnig um jákvæð áhrif þess að fólk sprautaði klórefnum í líkama sinn en það er beinlínis hættulegt að sögn lækna. En Lindell var með aðra hugmynd, vökvi úr lárviðarrós átti að hans mati að hafa jákvæð áhrif á baráttuna við veiruna. Svo heppilega vildi til að hann var stjórnarmaður í líftæknifyrirtæki sem seldi vörur sem þessar. Anderson Cooper, fréttamaður hjá CNN, fjallaði um þetta og sagði Lindell vera „skottulækni“ og benti á að plantan er mjög eitruð. „Þú hefur enga læknisfræðilega menntun, það eru engar sannanir fyrir hendi hvað varðar þetta lyf og það hefur aldrei verið prófað á mönnum eða dýrum,“ sagði Cooper.
Lindell heimsótti Trump oft í Hvíta húsið og pólitísk sjónarmið hans komu honum vel hvað varðar viðskiptalífið. Hann gerði út á að vera talsmaður íhaldssamra gilda og það færði honum mikið af ókeypis auglýsingum fyrir My Pillow á sama tíma og margir í bandarísku viðskiptalífi héldu sig frá Trump til að skaða ekki ímynd fyrirtækja sinna.
Eftir ósigur Trump í kosningunum í nóvember, ósigur sem Trump neitar enn að viðurkenna og heldur enn fram staðlausum fullyrðingum um að rangt hafi verið haft við, var Lindell einn af dyggustu stuðningsmönnum hans og sagði að alþjóðlegt samsæri og falsaður hugbúnaður í talningarvélum hefði stolið sigrinum frá Trump. „Við erum með 100% sannanir fyrir svindlinu,“ sagði Lindell.
Lindell lét sér ekki nægja að reka áróður fyrir kosningasvikakenningar Trump því hann reyndi að sögn að hafa bein pólitísk áhrif á síðustu dögum ríkisstjórnar Trump. Á fundi með Trump í Hvíta húsinu 15. janúar, er hann sagður hafa hvatt Trump til að blanda hernum í stjórnmálin. Þessu hafa margir bandarískir fjölmiðlar skýrt frá. „Forstjóri My Pillow var með áætlun sem gekk út á að færa embættismenn til í stjórnkerfinu til að safna sönnunum um kosningasvindl sem hann heldur að hafi átt sér stað og nota herinn til að reyna að halda Trump í embætti,“ sagði Washington Post um málið.
En ekkert varð úr þessu verkefni, sem líkist einna helst valdaránstilraun, og nú er Lindell sjálfur í klemmu. 22 bandarískar verslunarkeðjur hafa hætt viðskiptum við My Pillow og segja að það sé vegna minnkandi eftirspurnar. Því trúir Lindell ekki og í samtali við Right Side Broadcasting Network sagði hann að keðjurnar væru hræddar við hann.
En það vekur honum væntanlega meiri áhyggjur að framleiðendur fyrrnefndra talningavéla undirbúa nú lögsókn á hendur honum upp á sem nemur tugum ef ekki hundruðum milljarða íslenskra króna fyrir að hafa fullyrt að hugbúnaður þeirra hafi verið falsaður og gerður til að svindla.
Hann er ekki sá eini sem verður fyrir málsókn af þessu tagi því nú þegar hafa framleiðendur talningavélanna stefnt Rudy Giuliani, lögmanni Trump og fyrrum borgarstjóra í New York, fyrir svipuð ummæli og er hann krafinn um 1,3 milljarða dollara í skaðabætur. Sömuleiðis hafa framleiðendurnir krafið Fox News um 2,7 milljarða dollara fyrir álíka ummæli.