Það var hópur 33 vísindamanna, sem breska vísindaritið The Lancet, setti á laggirnar í apríl 2017 sem rannsakaði áhrif stefnu Trump á heilsufar Bandaríkjamanna. Hópurinn bar tölur um heildarfjölda látinna í Bandaríkjunum saman við tölur um dauðsföll á fyrri árum í Bandaríkjunum og öðrum ríkjum. Tölurnar voru notaðar til að búa til reiknilíkön yfir dánartíðni í Bandaríkjunum ef Trump hefði ekki breytt lögum og reglum. The Guardian skýrir frá þessu.
Niðurstöðurnar eru engin skemmtilesning. Að mati vísindamannanna létust 22.000 fleiri í Bandaríkjunum 2019 en hefðu látist ef Trump hefði ekki breytt þessum lögum og reglum.
Samantekt New York Times sýnir að Trump og stjórn hans afnámu eða slökuðu á kröfum í 100 lögum og reglugerðum um umhverfismál. Þeirra á meðal eru 30 mismunandi reglur hvað varðar loftmengun. „Stjórn Trump hætti í raun og veru að fylgja eftir lögum um hreint loft,“ sagði Philip Landrigan, einn vísindamannanna, í samtali við Bloomberg Green. Hann er veirufræðingur og barnalæknir og einn helsti baráttumaður heims fyrir heilsu barna.
Lög um hreint loft voru sett 1970. Í valdatíð Barack Obama voru þau notuð til að takmarka losun CO2 og svifryks. Svifryk hefur verið tengt við banvæna sjúkdóma eins og astma í börnum, hjarta- og æðasjúkdóma, lungnakrabbamein og sykursýki.