Þessari spurningu var velt upp í umfjöllun CNN um málið. Einnig var spurt hvað Trump sé svona hræddur við og af hverju hann hafi barist svo harkalega fyrir því í fimm ár að fólk fái ekki að sjá skattaskýrslur hans?
CNN bendir á að þetta hafi ekki alltaf verið afstaða Trump og rifjar upp að 2014 hafi hann sagt: „Ef ég ákveð að bjóða mig fram mun ég leggja skattaskýrslur mínar fram. Það myndi ég elska að gera.“ Í útvarpsþætti Hugh Hewitt, ári síðar, sagði hann: „Ég myndi svo sannarlega birta skattaskýrslur mínar ef það væri nauðsynlegt.“
Í janúar 2016 var hann enn á þessari línu þegar hann kom fram í þættinum „Meet the Press“ hjá NBC. En í febrúar 2016 var hljóðið farið að breytast en þá var Trump orðinn mjög líklegu
r til að verða forsetaframbjóðandi Repúblikanaflokksins. Hann fór þá að draga úr fyrri yfirlýsingum sínum og loforðum um þetta. „Við tökum ákvörðun um þetta á næstu mánuðum. Þetta er mjög flókið,“ sagði hann í samtali við Andresonn Cooper á CNN þann 24. febrúar. Daginn eftir var hann kominn með afsökun fyrir að opinbera ekki skattskýrslur sínar: „Þær voru teknar til endurskoðunar og augljóslega get ég ekki birt þær ef þær eru til endurskoðunar,“ sagði hann. „Um leið og því er lokið mun ég gera það,“ sagði hann.
Þetta segir CNN að hafi einfaldlega verið léleg afsökun því ekkert banni fólki að birta skattaskýrslur sínar þótt þær hafi verið teknar til endurskoðunar af skattyfirvöldum. Það hafi Richard Nixon til dæmis gert þegar hann var forseti. Segir CNN að þetta hafi einfaldlega verið afsökun sem Trump hafi sett fram eftir að hann tók ákvörðun um að birta skattaskýrslur sínar ekki. Það hafi verið mat hans að það myndi valda honum meiri pólitískum skaða að birta þær en ekki.
Eins og kunnugt er komst The New York Times yfir gamlar skattaskýrslur Trump og fjallaði ítarlega um þær. Segir CNN að miðað við þá umfjöllun séu tvær ástæður líklegastar til að liggja að baki ákvörðun hans um að birta skýrslurnar ekki. Önnur sé að hann hafi ekki greitt skatt árum saman og hin sé að hann skuldar svo mikið.
Úr umfjöllun New York Times má lesa að Trump greiddi enga tekjuskatta á 11 af þeim 18 árum sem blaðið skoðaði. Hann greiddi 750 dollara í tekjuskatt 2017 en þá var hann orðinn forseti.
CNN segir að þetta hafi hann getað því hann hafi talið fram 900 milljóna dollara tap 1995 og það hafi komið honum hjá því að greiða skatta áratugum saman. Hann hafi einnig reynt að fá samþykkta lækkun á skattskyldum tekjum sínum og hafi talið þannig fram að skattar hans voru lækkaðir um 73 milljónir dollara. Það mál sé til rannsóknar núna hjá skattinum.
Einnig hefur verið bent á að skattskýrslurnar kunni að sýna hversu mikið Trump skuldar og að hann þurfi að greiða 100 milljónir dollara af lánum á næsta ári og eigi litlar eignir til að veðsetja eða selja til að geta staðið undir því. Ef hann tapi máli sínu gegn skattinum um endurgreiðslu á tugum milljónum dollara skuldi hann skattinum að auki tæplega 100 milljónir, að vöxtum meðtöldum.