Þetta eru niðurstöður nýrrar könnunar sem Suffolk University og USA Today gerðu. Niðurstöðurnar sýna að enn er stór hluti stuðningsmanna Trump honum trúr þrátt fyrir áhlaupið á þinghúsið þann 6. janúar.
„Okkur finnst að Repúblikanar berjist ekki nægilega mikið í okkar þágu og við sjáum öll að Donald Trump leggur eins mikið á sig og hann getur fyrir okkur daglega,“ hefur USA Today eftir Brandon Keidl, 27 ára fyrirtækjaeiganda i Milwaukee, um stuðning hans við Trump.
Réttarhöldin yfir Trump í öldungadeildinni nýlega þar sem hann var ákærður í annað sinn vegna meintra brota í embætti sýndu vel þær átakalínur sem eru í Repúblikanaflokknum um hlutverk Trump í flokknum. Sjö Repúblikanar greiddu atkvæði með sekt Trump sem var þó sýknaður af ákærunni. Í kjölfar réttarhaldanna hefur Trump átt í útistöðum við Mitch McConnell sem er leiðtogi Repúblikana í öldungadeildinni og hæst setti kjörni fulltrúi flokksins.