Í dómsorði kemur fram að dóminn fái hann fyrir að aðstoða við glæpi gegn mannkyninu með því að handtaka mótmælendur og flytja í fangelsi í Damaskus en þar voru fangar pyntaðir.
Þetta er fyrsta málið sem kemur til kasta þýskra dómstóla þar sem fjallað er um pyntingar sem stjórn Bashar al-Assad, Sýrlandsforseta, hefur staðið á bak við.
Al-Garib var ákærður fyrir að hafa flutt að minnsta kosti 30 stjórnarandstæðinga í Al-Khatib fangelsið til að láta pynta þá. Hann starfaði þá fyrir sýrlensku leyniþjónustuna. Hann flúði síðar til Þýskalands þar sem hann var handtekinn í febrúar 2019.
Dómstólinn í Koblenz er einnig með ákæru á hendur Anwar Raslan til meðferðar en hann er 58 ára Sýrlendingur sem er talinn hafa verið ofursti hjá sýrlensku öryggislögreglunni. Hann er talinn hafa staðið á bak við morð á 58 manns og pyntingar á 4.000 til viðbótar í Al-Khatib fangelsinu. Þetta gerðist 2011 og 2012.