CNN skýrir frá þessu. Fram kemur að vísindamenn við Kaliforníuháskóla í San Francisco hafi rannsakað veirusýni víða að úr ríkinu og komist að því að þetta nýja afbrigði hafi sótt í sig veðrið. Það var ekki að finna í sýnum í september en í janúar var það í helmingi sýnanna.
Vísindamenn segja að afbrigðið sé með aðrar stökkbreytingar en stökkbreyttu afbrigðin sem fundust fyrst á Englandi og í Suður-Afríku. Charles Chiu, sem stýrði rannsókninni, segir að stökkbreytingin geti styrkt veiruna í að tengjast við frumur í mannslíkamanum og þar með sé afbrigðið meira smitandi. Teymi hans fann einnig sannanir fyrir að afbrigðið sé hættulegra. Það auki líkurnar á alvarlegum veikindum.
CNN segir að ný afbrigði veirunnar geti valdið vanda á næstu vikum í Bandaríkjunum, jafnvel þótt smitum fari nú fækkandi og bólusetningum miði ágætlega. Segir miðillinn að heilbrigðissérfræðingar óttist að stökkbreytt afbrigði veirunnar séu að taka fram úr bólusetningunum og því þurfi að halda áfram að nota andlitsgrímur, stunda félagsforðun og forðast mannmergð.
Það er rétt að hafa í huga að rannsóknirnar hafa ekki verið birtar eða ritrýndar enn sem komið er.