„Það er einmitt markaður eins og Chatuchak sem við horfum skelfingaraugum á því blóð, saur, slef, feldur og allt mögulegt annað, sem getur innihaldið veirur, kemst í snertingu við mörg önnur dýr og fólk,“ sagði Thea Kølsen Fischer, læknir hjá WHO og prófessor í veirusjúkdómum, í samtali við Politiken. Hún er í teymi WHO sem fór til Wuhan fyrr í mánuðinum til að reyna að afla vitneskju um upptök faraldursins. Hún telur miklar líkur á að Chatuchak-markaðurinn sé upptakasvæðið.
Nýja kenning WHO gengur út á að kórónuveiran hafi átt upptök þegar leðurblaka smitaðist af veirunni og frá henni barst hún til annarra dýra og síðan til manna. Því næst hafi veiran ratað til Wuhan með smituðu dýri frá Chatuchak-markaðnum, sem var selt þaðan til Wuhan, eða þá að manneskja smitaðist í Chatuchak og fór síðan til Wuhan.
Chatuckak-markaðurinn er stærsti helgarmarkaður heims og koma mörg þúsund manns þangað um hverja helgi til að kaupa framandi dýr. Margir sérfræðingar hafa áður bent á að markaðurinn sé fullkominn útungunarstaður nýrra og hættulegra veira. Nú telur WHO líkur á að heimsfaraldurinn hafi átt upptök sín þar.