Í gær voru 7.676 ný smit skráð í landinu en það er 1.526 fleiri en sunnudaginn í vikunni áður. Hlutfall smitaðra af hverjum 100.000 íbúum var í gær 60,2 en var 57,7 á laugardaginn.
Sérfræðingar telja að aukningu smita megi rekja til nýrri og meira smitandi afbrigða veirunnar sem breiðast nú út í landinu. Sem dæmi má nefna að í Flensborg, sem er í Slésvík-Holtsetalandi, hefur enska afbrigðið svokallaða, B117, breiðst mikið út og er nú rúmlega helmingur smita í borginni af þess völdum. Þar var útgöngubann sett á á laugardaginn og gildir það frá 21 til 05 á hverjum degi. Skólar verða áfram lokaðir og fólki er óheimilt að hitta fólk sem býr ekki á sama stað og það sjálft.
Fjölgun smita vekur að vonum áhyggjur og þá kannski sérstaklega í ljósi þess að 10 af sambandsríkjunum opna skóla á nýjan leik í dag. Þetta hefur ýtt undir umræðuna um að kennarar eigi að njóta forgangs í bólusetningu.