Danska ríkisútvarpið segir að vísindamenn við Árósaháskóla hafi nú í tvö ár reynt að fanga úlfa til að geta komið GPS-sendum fyrir á þeim, til að hægt sé að fylgjast með ferðum þeirra, en án árangurs.
Vísindamenn geta ekki með vissu sagt til um hvað varð um horfnu úlfana níu en grunar að þeir hafi verið drepnir. Eitt staðfest dæmi er um að úlfur hafi verið drepinn en það gerðist við Ulfborg á Jótlandi í apríl 2018. Þá skaut heimamaður úlf og náðist drápið á myndband. Viðkomandi var síðar dæmdur til refsingar fyrir drápið en úlfar eru alfriðaðir því þeir eru í mikilli útrýmingarhættu.
Danska umhverfisstofnunin hefur beðið vísindamenn við Árósaháskóla að koma með tillögur um hvernig hægt er að koma í veg fyrir að úlfar séu drepnir. Ein af tillögunum var að setja GPS-senda á þá til að hægt sé að fylgjast með ferðum þeirra. Með því væri hægt að fá vitneskju um hvar og hvenær þeir voru síðast á ferð. Vonast vísindamenn til að þetta hafi ákveðið forvarnargildi og geri fólk afhuga því að drepa úlfa. En eins og fyrr segir hefur ekki tekist að fanga einn einasta úlf og því hefur ekkert orðið úr því að koma sendi fyrir á þeim.