Portúgalar báðu um aðstoð um helgina þegar aðeins sjö af 850 gjörgæslurýmum, fyrir COVID-19-sjúklinga, í landinu voru laus. Rúmlega 12.000 hafa látist af völdum COVID-19 í Portúgal og rúmlega 710.000 hafa greinst með kórónuveiruna.
Þjóðverjar ætla að senda 27 lækna og bráðatækna til Portúgal í þrjár vikur. Þeir munu einnig senda öndunarvélar og sjúkrarúm. Der Spiegel skýrir frá þessu.
Sebastian Kurz, kannslari Austurríkis, sagði um helgina að Austurríki muni taka við gjörgæslusjúklingum frá Portúgal. Ekki hefur enn verið ákveðið hversu margir þeir verða en viðræður standa yfir á milli ríkjanna um málið. Austurríkismenn hafa áður tekið við COVID-19-sjúklingum frá Frakklandi, Ítalíu og Svartfjallalandi.