Sænska ríkisútvarpið (SVT) skýrir frá þessu. Fram kemur að börnunum hafi verið vísað á sérstaka deild fyrir langveik börn á Astrid Lindgren sjúkrahúsinu í Stokkhólmi. „Sum eru í skóla, önnur eru rúmliggjandi,“ sagði Malin Ryd Linder, yfirlæknir á deildinni, í samtali við SVT. Börnin eru flest á aldrinum 11 til 13 ára.
Algengustu einkennin eru höfuðverkur, þreyta og liðverkir, til dæmis í hnjám. Meðal þeirra sérfræðinga sem koma að umönnun og rannsókn á börnunum eru sálfræðingar, taugalæknar, lungnalæknar og hjartalæknar. Í upphafi var gert ráð fyrir að tekið yrði á móti 20 börnum á deildinni en nú eru þau orðin rúmlega 200.
Ekki er vitað hversu mörg börn þjást af eftirköstum COVID-19 þar sem tölur um það hafa ekki verið teknar saman á landsvísu.
Í nóvember var því slegið föstu að börn glíma við sömu eftirköst COVID-19 og fullorðnir. Þetta kom þá fram í skýrslu sem Jonas F. Ludvigsson, barnalæknir og prófessor við Háskólasjúkrahúsið í Örebro, gerði. Í skýrslunni kemur fram að börn glími til dæmis við mikla þreytu, öndunarörðugleika, eymsli í hálsi og háan púls við minnstu hreyfingu. Einnig voru dæmi um minnistap hjá börnum. Sænska ríkisstjórnin tilkynnti í janúar að hún myndi veita 50 milljónum sænskra króna til rannsókna á hvernig eigi að meðhöndla COVID-19 hjá börnum.