Að atkvæðagreiðslunni lokinni, McConnell greiddi atkvæði gegn ákærunni á hendur Trump, veittist McConnell að Trump úr ræðustól öldungadeildarinnar og sagði að þrátt fyrir að hann hafi greitt atkvæði gegn ákærunni væri Trump sekur og að réttast væri að fara með mál gegn honum fyrir hefðbundna dómstóla.
CNN segir að í yfirlýsingu Trump í gær kalli hann McConnell „drungalegan, fýldan og broslausan atvinnustjórnmálamann“.
Samband Trump og McConnell hefur verið slæmt í marga mánuði eftir að þeir höfðu unnið náið saman á meðan Trump sat á forsetastóli í Hvíta húsinu.
„Mitch er drungalegur, fýldur og broslaus atvinnustjórnmálamaður og ef öldungadeildarþingmenn Repúblikana munu sýna honum hollustu munu þeir ekki sigra aftur. Hann mun aldrei gera það sem þarf að gera eða það sem er rétt fyrir landið okkar. Þar sem er þörf og það er viðeigandi þá mun ég styðja keppinauta sem leggja áherslu á Making America Great Again (slagorð Trump) og stefnu okkar um að hafa Bandaríkin í forgangi. Við viljum greinda, sterka, íhugula og samúðarfulla leiðtoga,“ segir í yfirlýsingunni.
CNN segir að í yfirlýsingunni ráðist Trump einnig að fjölskyldu McConnell og að í yfirlýsingunni sé mikið um tilvísanir í fordóma og hagsmuni. Trump er þekktur fyrir að móðga þá sem gagnrýna hann sem og pólitíska andstæðinga sína og einnig hafa liðsmenn hersins, læknar hans og flokksbræður í Repúblikanaflokknum fengið að finna fyrir því.
CNN segir að Trump hafi viljað ráðast enn harðar á McConnell persónulega og hefur það eftir heimildarmanni í herbúðum Trump. Jason Miller, ráðgjafi Trump, sagði að fyrri útgáfa yfirlýsingarinnar hefði „líklega verið harðorðari“. Hann sagði þó að það hafi aldrei verið ætlunin að ráðast persónulega á fólk.
Trump segir í yfirlýsingunni að vanhæfni McConnell hafi átt þátt í að Repúblikanar misstu meirihluta sinn í öldungadeildinni og að ekki var tekið undir staðlausar fullyrðingar Trump um kosningasvindl í forsetakosningunum í nóvember.