Sænska ríkisútvarpið skýrir frá þessu. Fram kemur að rannsóknin hafi verið gerð á Danderyd sjúkrahúsinu og Karólínsku stofnuninni.
„Ef maður hefur fengið COVID-19 finnst mér að maður geti farið aftast í bólusetningarröðina og látið aðra fá bólusetningu sem hafa meiri þörf á því,“ er haft eftir Charlotte Thålin sem vann að rannsókninni.
Rannsóknin hófst í vor og voru langtímaónæmisáhrif COVID-19 smits hjá heilbrigðisstarfsfólki rannsökuð. Í þriðja fasa rannsóknarinnar kom í ljós að 96% þátttakendanna 370, sem voru með mótefni í vor, voru enn með mótefni sem veitti þeim vörn gegn veirunni.
Vísindamennirnir segja að enn gleðilegri tíðindi hafi verið að mótefnin virðist veita betri vernd en þeir héldu. Tæplega eitt prósent þátttakendanna smituðust aftur af veirunni á þeim tíu vikum sem rannsóknin stóð yfir. Vísindamennirnir höfðu átt von á að mótefnin veittu bara ákveðna vernd og að fleiri myndu vera með veiruna í sér án þess að sýna sjúkdómseinkenni.